Jahá ég er sem sagt búin í einu prófi. Var að klára fyrir 3 tímum ætlaði sko heim og fara beint að læra fyrir það næsta. það hefur ekki enn gerst en stendur allt saman til bóta. Það getur svo margt staðið svo lengi til bóta. Aumingja bót!
Ég get ekki mælt með því við nokkurn mann að byrja próflestur þegar maður er nýlentur eftir dvöl í útlandinu. Ég áttaði mig ekki einu sinni á því að ég væri að fara í próf þegar ég sat með örkina fyrir framan mig, skærgrænu eyrnatappana á sínum stað og mjög ábyrgðafulla yfirsetu konu að segja mér að ég mætti ekki vera með vatnið mitt á borðinu...áttaði mig reyndar ekki á því sem hún var að segja þar sem eins og áður segir voru eyrnatapparnir á sínum stað. Það vantar þennan fíling að maður sé í prófum. Einkenni prófafílingsins eru eftirfarandi: óendanlegur leiði og löngun til að gera allt annað en að lesa...reyndar eðlilegt ástand hjá sumum, vægur magaverkur og í slæmum tilfellum handskjálfti og svo eflist einbeiting og geta til að hundskast á fætur á morgnanna til að læra, til muna! Get ekki sagt að ég sakni þessa en einbeitinguna væri fínt að fá og auglýsi ég hér með eftir henni.
