AAHHHH það er svo gott veður hérna núna og bara búið að vera geggjað veður. Sól, hiti, skærgræn tré og heiðblár himinn. Hvað getur maður hugsanlega beðið um meira. Ég veit það ekki. Hér er grillað eins og íslendinga er siður i hvert einasta skipti sem sólin rekur fram nefið og eru síðustu dagar engin undantekning. Næsta laugardag geri ég fastlega ráð fyrir að margir skelli borgurum og steikum á kolin og fylgist svo með henni Birgittu "okkar" Haukdal trylla lýðinn i Riga og vinna svo Evróvisjón. Hmmm, ég leyfin mér að vera aðeins svartsýnni en flestir en vona þó innilega að við getum verið með a næsta ári því það er svo skemmtileg stemmning sem ríkir hér á þessu litla landi þegar "við" tökum þátt i svona stórmerkilegum menningarviðburði.
Síðan ég kom heim hefur eiginlega stemmningin verið alls ráðandi. Síðasti stemmari var vegna kosninga. Stemmningin og sigurgleðin var mikil. Jafnvel þótt síðar fyndist okkur vinstra fólki svolítið súrt i broti að Ingibjörg Sólrún kæmist ekki á þing. En þessi kosningastemmning er löngu flúin úr röðum Sjálfstæðis manna. Þeir bjóða uppá sömu súpu úr sömu skál næstu mánuði...ja ætla nú aðeins að velgja undir henni eftir 15 mánuði en þangað til verðum við hin að lepja þetta sama sull. Það eimir enn af stemmningunni hjá Framsókn enda bjóst örugglega enginn i röðum þeirra grænu dreifbýlisbomba að 17% flokkur fengi forsætið. Þetta er nú lýðræðið meirihlutinn ræður....jaa eða bara þeir sem geta sigað pabba á móti mömmu eins og Framsókn. " Mamma" segir að ég megi leika forsætisráðherra ef ég verð yfir jólin hjá henni. Pabbi bregður þá á það ráð að láta forsætið eftir og bæta inn nokkrum súkkulaði molum sem hann á i vasa sér og fær þess vegna litla kallinn um jólin eins og síðustu ár.

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home